10 vikur

 

 

Þá er vegferðinni góðu lokið, já ótrúlegt en satt 10 vikur búnar.  Árangur stóð ekki á sér, missti  tæp 8% af fitu og tæp 13 kg.  Markmiðin mín í þessari vegferð voru 10 kg en í heildina 16 kg nú eru rúm þrjú erfið kíló eftir.

Ég er í skýjunum, þetta var ekkert mál, bara að koma sér upp úr blessuðum sófanum og fara að hreyfa sig,  skipta yfir í rétt mataræði og vera með réttu vítamínin, allt spilar þetta inn í þennan flotta árangur en ég er ekki hætt.  Ég ætla að halda áfram að taka einu æfingu á dag og fara eftir hlaupaprógrammi sem ég fæ sent einu sinni í viku.  1. okt ætlum við stelpurnar að hittast aftur þar sem hún Anna ætlar að mæla okkur, það hjálpar manni í gegnum grillsumarið mikla. Ég á von á sól í sumar í Reykjavík.   

 

Veturinn var miklu fljótari að líða, af hverju, jú viku eftir viku biðu spennandi tímar í Hreyfingu með frábærum kennurum og frábærum hóp af stelpum, ég hef skrifað um það áður að það skiptir svo miklu máli að hafa góða æfingafélaga með sér sem eru með sömu markmið og maður sjálfur, í þessu tilfelli að léttast og komast í betra form. 

Annað sem ég fann sem skipti miklu máli að maðurinn minn ákvað að sneiða fram hjá sykri eins og ég. Við vorum að koma úr fríi þar sem ég þurfti að halda mínum markmiðum áfram, að hreyfa mig, borða holt og sykurlaust. Við fórum bæði út að hreyfa okkur á hverjum morgni og stundum tvisvar á dag, það var mikil hvatning að hafa hann með sér.    

Þetta er búið að vera rosalega gaman, rosalega hvetjandi tími og ekki spurning smá pressa í gangi.  Ég hvet alla þá sem þurfa að fara þessa vegferð að drífa sig á stað, ekki segja „ég byrja í haust“ og úða svo í sig í allt sumar,  byrjið strax, það verður ekkert auðveldara að byrja á morgun eða í haust.

 

Takk fyrir mig

Unnur Elva


Líkaminn okkar

Þegar maður eldist þá er margt sem breytist í líkamanum, orkan minkar, kílóin bætast á og ekki eins auðvelt að ná þeim aftur af, maður þarf meiri svefn.  Þegar maður dettur inn í þennan aldurspakka þá skiptir máli að hafa réttu vítamínin, að borða rétt og passa að hvíldin sé til staðar. 

Vítamín, til hvers segja margir, maður fær allt úr þeim afurðum sem maður fær daglega, þessu er ég bara ekki sammála.  Áður en ég fékk ráðleggingu um hvaða vítamín ég þyrfti þá var ég með mikið slen, átti erfitt með að vakna á morgnanna og  var alltaf þreytt, eftir að ég hóf töku á réttum vítamínum þá hafa   allir þessi liðir horfið, ég þarf minni svefn og sef betur, ég er miklu orkumeiri og nú er klukkan ekki snúsuð á morgnanna, ég ætlaði í raun ekki að trúa þessu, og það sem mér finnst frábærast við þetta allt er að ég finn mun á mér ef ég gleymi að taka vítamínin mín á morgnana.

Sykurinn er líka hluti af orkuleysi og sleni, maður trúir því ekki fyrr en maður hefur prófað þetta sjálfur hvað þetta spilar saman, hætta að borða allan þennan sykur og taka réttu vítamínin, það fer allt of mikil orka í að melta allan þennan viðbótasykur, nú tala ég af eigin reynslu.

Nú fer þessari vegferð senn að ljúka, vika níu að byrja og allar erum við enn á fullu, það sem einkennir okkur fimm, að mér finnst, er að það hefur ekki verið nein uppgjöf, jú smá væl um að við stöndum í stað, en það tók yfir stuttan tíma.  Allar staðráðnar í að halda áfram, áfram að gera enn betur í dag en gert var í gær.  Sumarið er vonandi á næsta leiti og því fylgir alltaf töluvert af freistingum, grillveislur og stemming.  Allt er gott í hófi reynir maður þá að segja við sjálfan sig, leifa sér smá en sleppa sér ekki. 

 

Heyrumst eftir viku

kveðja

Unnu Elva


7 vikur búnar af 10 vikum

Nú er allt of langt síðan að ég skrifaði siðast en það er svo margt að gerast hjá mér núna,eitt sem mig langar að nefna, það er alveg ótrúlegt hvað mikið nammi er búið að vera í boði í vinnunni á þessum tíma, en mikið er ég heppinn að hafa alla þessa ávexti hjá mér,  tölum ekki um allar veislurnar sem eru búnar að vera undan farnar vikur. Þrátt fyrir allar þessar freistingar  er ég búin að vera svakalega stapíl, enginn sykur kominn á borðið hjá mér, ég er alveg ákveðin að vera sykurlaus og klára þessa áskorun.

það eru sjö vikur að klárast, ég orðin 9 kílóum léttari og farin að hlaupa 9 km, allt að gerast.  Alveg ótrúlega gott að setja sér markmið.  Í upphafi þá voru markmið mín að komast niður fyrir ákveðna tölu í þessum áfanga á vigtinni það stefnir allt í að það takist hjá mér. 

Ég ætlaði að ná því að hlaupa 10 km á innan við klukkutíma það ætti að takast á þessum tíu vikum, ég er búin að skrá mig í fjarþjálfun í hlaupi.  Já, eflaust hvá margir núna „fjarþjálfun í hlaupi“ hvað er það?  Ég fæ sent núna í byrjun hverrar vikur í allt sumar prógram sem ég fer eftir, þetta kemur til með að hjálpa mér að ná hlaupaárangri mínum.   Önnur ástæðan fyrir því að ég er búin að skrá mig í hlaupahóp er að hafa eitthvað að stefna að þegar þessum 10 vikum líkur.

Á þessum vikum sem liðnar eru er það tvennt sem stendur uppúr, númer eitt er að það skiptir klárlega miklu máli að hafa góða æfingafélaga, þegar maður fer á stað í svona vegferð þá er ekki gaman að gera það einn, hafa einhvern sem er að setja sér svipuð markmið skiptir miklu máli, númer tvö er að setja sér markmið, alls ekki fara á stað og hafa ekki markmið.

þangað til næst

Kveðja

Unnur Elva

 


Helgar

 Oft kveið mér fyrir helgunum þar sem ég átti mjög erfitt með að vera dugleg í mataræðinu um helgar. Helgin byrjaði yfirleitt með pizzu á föstudagskvöldi og þá var voðinn vís, eftir pizzu á föstudagskvöldi öskrar maginn á mat á laugardagsmorgni, ristað brauð með sultu og camenbert varð þá fyrir valinu og svona hélt helgin áfram.  Síðasta föstudagskvöld varð veitingastaðurinn Krúska á Suðurlandsbraut fyrir valinu, frábær staður með holla og góða rétti.  Laugardagsmorgun, vaknað snemma og tekið vel á því í ræktinni, í kjölfarið orkumikill morgunmatur með grískri jógúrt og ferskum ávöxtum. 

 Lífið er bara allt annað núna, líðanin er allt önnur og orkan umtalsvert meiri.  Fötin eru rýmri og það er alltaf jákvætt hjá konum þegar þeim árangri er náð. 

 Á sunnudaginn var barnaafmæli, hvað gerir maður þá, jú ég bauðst til að koma með hráköku bæði fyrir mig og aðra veislugesti sem vilja bragði á þessu dýrindis góðgæti sem er sykurlaust.  Hráfæði er eitthvað sem ég uppgötvaði núna á sykurlausa fæðinu mínu.  Þetta er allt rosalega gott, mikil fjölbreytni og auðvelt að útbúa en getur tekið töluverðan tíma.  Ég hvet alla þá sem ekki hafa prófað eða smakkað að gera það strax.

 Í dag eru það helgarnar sem eru auðveldari en virku dagarnir, þá næ ég að skipuleggja mig betur, borða 100% rétt og fjölbreytnin er töluvert meiri en á virku dögunum.

 Við erum um það bil að klára viku sex í þessari heilsuvegferð, tíminn er búin að vera fáránlega fljótur að líða, flottur hópur af konum sem hafa stutt hvor aðra í svita og tárum, smá væmni hérna, það er nú þegar búið að ákveða að halda hópinn áfram, hittast reglulega í ræktinni og deila árangurssögum. 

Kveðja

Unnur Elva


Sentimetrar á flugi

 

Þá erum við að verða um það bil hálfnaðar og árangurinn stendur ekki á sér. Það sem hefur gerst þessar tæplega fimm vikur er að ég get í dag hlaupið 5 KM án þess að mæðast eins og hundur, ég er búin að missa umfram væntingar af kílóum og tugir af sentimetrum farnir.  Líðanin er allt önnur eftir að ég tók sykurlausu áskoruninni, ég er miklu orkumeiri, á auðvelt með að vakna alla morgna virku daga vikunnar klukkan fimm.  Húðin er sléttari og mér ekki eins kalt, þarna eru vítamínin að virka heldur betur.

 

Ég er miklu einbeittari í vinnunni, sjálfstraust hefur aukist og næ að afkasta töluvert meiru en áður.

 

Hverju hef ég breytt í stórum dráttum fyrir utan að taka sykur út,  borða alveg sex mismunandi stórar máltíðir á dag, passa alltaf að borða hollan orkuríkan morgunmat, hef ekkert verið að borða pasta, hrísgrjón eða  hvítar kartöflur.  Ég hef aukið umtalsvert að borða grænmeti og ávexti, notað grískan jógúrt sem ídýfu, borða töluvert af feitum fisk og sleppt fitu á kjöti.

 

Jú eflaust segja margir „þetta gengur ekki upp endalaust svona“ málið er bara að ég er ákveðin að ná mér núna niður í kjörþingd og halda mér þar, eflaust kem ég til með bæta inn aftur pasta, kartöflum og grjónum en þá bara í hádeginu.

 

Þangað til næst

 

Kveðja

Unnur Elva


Léttist um páskana

 Nú eru páskarnir að baki, hátíð sem hefur farið í að borða góðan mat, páskaegg og eftirrétti, en ekki þessa páska, þar sem ég fékk þetta frábæra tækifæri með Hreyfingu og Mörtu ákvað ég að hafa þessa páska með allt öðru sniði. Ég mætti á æfingu á hverjum degi, borðaði ekkert páskaegg og matur var í hófi. Í stað þess að úða í mig rjómasósum og kartöflum fullar af smjöri, bjó ég til með steikunum girnileg sallöt með margvíslegum tegundum af grænmeti og setti síðan döðlur út á, þetta gerði það að verkum að löngun í sósur hvarf, einnig notaði ég sætar kartöflu sem fengu þann heiður að bakast í ofni. Ég passaði að eiga fullt af ávöxtum og góðar hnetur sem ég greip í þegar mig langaði í eitthvað. Það var eitt kvöld sem ég átti pínu bágt, en notaði þá ráðið hennar Ágústu í Hreyfingu, fékk mér popp og vatn

 

 Þannig að þegar ég steig á vigtina í dag þá hafði ég lést. Ég man bara ekki eftir því að hafa lést um páskana áður. Þetta er bara svo létt, þegar maður hefur þennan stuðning þá gengur þetta miklu betur. Pressan líka í að standa sig kemur kláralega sterk þarna inn, nýta þetta tækifæri til fulls.

 

 Þrekið hefur aukist, ég er farin að geta hlaupið lengur en áður, ég hef verið að bæta mig núna í hverri viku. Tel ég því að þakka meðal annars frábæran vítamín pakka sem Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti hjá Heilsuhúsinu setti saman fyrir mig, Um er að ræða vítamín og bætiefni frá Solaray sem Heilsuhúsið er með í sölu.

Þangað til næst

Kveðja

Unnur Elva


Vika tvö

  Nú eru komnar tvær vikur frá því að ný vegferð hófst.  Ég er farin að finna fyrir minna sleni og auknu úthaldi á æfingum, þolið er bara handan við hornið. Þetta er ótrúlega auðvelt, jú tekur miklu lengri tíma að versla þar sem ég þarf að lesa aftan á allt sem ég kaupi í matinn. 

 

  Það sem er svo gaman við þetta er að ég er farin að nota grænmeti í matinn sem ég var ekki nógu dugleg að nota áður, það er því komin meiri fjölbreytni í matargerðina hjá mér. Mesti söknuðurinn í dag er í sushi, en viti menn þeir framleiða heilsu sushi sem er sykurlaust og alveg hægt að venjast.

 

  Við  erum búnar að fara á  vigtina einu sinni og var það mikill fögnuður að sjá árangur fyrstu vikunna, næsta vigtun er á morgun þriðjudag og eflaust ekki eins mikill árangur þar sem núna eru bara komnir 4 dagar frá því síðasta vigtun átti sér stað.  Æfingar eru komnir á dagatalið einu sinni á dag að meðaltali, svona ætla ég að halda út þangað til að ég hef náð settum árangri, næsta skref er að gera þetta að lífstíl.  Eitt sem ég gerði um helgina var að taka íþróttatöskuna með mér í frí og nota hana.  Afsökun hefur alltaf verið handan við hornið, það er ekki pláss fyrir skóna, ég ætla ekki að taka íþróttafötin með mér núna þau taka of mikið pláss, en ekki þessa helgi, eins og máltakið segir “batnandi mönnum er best að lifa“. 

 

Nú eru páskar handan við hornið, vandamálið liggur ekki í að sleppa páskaegginu heldur í að borða hollan mat og minni skammta, ég læt ykkur vita næst  hvernig það gekk hjá mér.

 

Gleðilega páska

Unnur Elva


Fyrsta vikan að baki

Nú er fyrsta vikan að baki og þar af fyrsta helgin sem mér kveið mikið fyrir. Málið hjá mér að ég er mjög góð að halda mér í góðu aðhaldi alla virka daga en svo koma helgarnar. Ég virðist alltaf ná að sannfæra sjálfa mig um hvað ég var rosalega duglega að nú megi ég sukka, og það hef ég gert „all inn“

Viti menn nú stóð ég mig eins og hetja, fór í Víði og keypti helling af margvíslegum ávöxtum, ég held að ég hafi aldrei séð jafn mikið og margar tegundir á einum stað, það mætti halda að stæðasta Cargo vél Icelandair hafi verið að afferma inn í verslunina á laugardeginum þegar ég mætti. Laugardagskvöldið var sem sagt bakki af fallegum ávöxtum og vatn með, ekki gott rauðvín, gormet nammi og snakk  

Fyrsta vikan fór í það hjá mér að taka út ákveðna fæðutegundir, minnka matarskammta og koma mér í ræktina, borða fimm máltíðir á dag en ein máltíð getur verið einn ávöxtur.

Ég er sko alveg búin að komast að því að það er ekki nóg að vera bara í þokkalega hollu mataræði og hreyfa sig ekki neitt, eða öfugt. Þetta tvennt verður að fylgjast að ef maður ætlar sér að vera í þokkalegu formi, þetta er í raun lífstíll sem við verðum að aðlagast

Nú hefst vika tvö að krafti, mitt mottó þessa vikunna er að byrja að hlaupa, í dag hef ég ekkert úthald í hlaup. Ég læt ykkur vita eftir viku hvernig það plan gekk

 

Kveðja

Unnur Elva


Ég var valinn

Ég verð að fá að deila þessu með ykkur, ég var valin í 5 manna hóp heilsuátaks Mörtu Maríu og Hreyfingu næstu 10 vikurnar, fjölskyldu minni til mikillar ánægju og gleði. Í þeirra eyrum hefur eftirfarandi setning hljómað asni of oft „ég er orðin of feit og þarf að gera eitthvað í því“ en viti menn ekkert gerðist.

 

Það sem vekur mestan áhuga minn er að fara að borða rétt og taka sykurlausri áskorun. Eftir frábæran pistil hjá Hreyfingu um mataræði þá ákvað ég að taka sykurlausri áskorun Mörtu Maríu, en það er bara ekki svo einfalt. Þegar ég kom heim og opnaði ísskápinn minn þá fann ég tvær tegundir sem ekki innihéldu sykur, það voru egg og pestó sem ég átti, alltaf annað var með sykri, beikon, kjúklingabringur svo eitthvað sé nefnd.

 

Nú tekur við veruleg áskorun við að fara að versla sykurlausan mat, en spurning mín til ykkar er það hægt? Jú auðvitað er það hægt það er fullt af fólki sem hefur tileinkað sér þennan lífstíl og lifir góðu lífi.

Takk fyrir mig


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband